Áfram deilt um Krist í kennslu

Litlu jólin.
Litlu jólin.

Samtökin Siðmennt hafa farið fram á fund með menntamálaráðherra til að fá fram afstöðu til hlutverks kristinnar trúar í grunnskólum landsins. Samtökin segja að lögum hafi verið breytt en þeim þurfi líka að fylgja, annars blasi dómstólaleiðin við.

Siðmennt finnst línur síst hafa skýrst eftir fund biskups og ráðherra í vikunni. Sá var haldinn vegna fermingarfræðslu á skólatíma og varð niðurstaðan sú að fermingarferðir geta áfram verið á virkum dögum skólaársins. En þær mega ekki vera hluti af skóladagatalinu og undirbúningurinn á að vera í samráði foreldra, skóla og kirkju.

Siðmennt er ekki sátt við niðurstöðuna og sýnist ráðherra vera að hopa frá því fyrst var sent bréf um að óheimilt væri að veita leyfi til ferðanna á skólatíma. Bjarni Jónsson, varaformaður Siðmenntar, segir ráðherra hafa verið sent bréf og bent á niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu um kristnifræðikennslu í norskum skólum. Siðmennt jafnframt beðið um fundinn með ráðherra.

 „Biskup fékk fund nánast fyrirvaralaust og vonandi gildir það sama um Jón og séra Jón að því leyti," segir Bjarni. Siðmennt telur sig hafa traustan lagalegan grunn til að fara fram á að kristnu trúboði í skólum verði hætt. Undir það falli helgileikir, útdeiling trúarrita og kirkjustarf á skólatíma. En litlu jólin megi halda – án trúboðs og helgileikja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert