Í kjölfar þess að Landssími Íslands var seldur árið 2005 var ráðstöfun á söluandvirði hans bundin í lög. Upphæðinni sem um ræðir átti að eyða „til að styrkja innviði íslensks samfélags án þess að raska stöðugleika í efnahagsmálum".
Alls er um að ræða 43 milljarða króna sem átti að verja til ýmissa framkvæmda út árið 2012. Fimmtán milljarðar króna áttu að fara í auknar vegaframkvæmdir á árunum 2007 til 2010. Þar af áttu átta milljarðar króna að fara í lagningu Sundabrautar. Háskólasjúkrahús átti að rísa við Hringbraut og átján milljarðar króna að renna í það verkefni.
Þrír milljarðar króna fóru til Landhelgisgæslunnar vegna kaupa á skipi og flugvél og tveir og hálfur milljarður í Nýsköpunarsjóð til að stuðla að „nýsköpun í íslensku atvinnulífi". Sama upphæð átti að renna til nýs fjarskiptasjóðs og milljarði var heitið til uppbyggingar búsetuúrræða og þjónustu við geðfatlaða á tímabilinu 2005 til 2009.
Þá átti stofnun íslenskra fræða, Árnastofnun, að fá milljarð króna til að reisa nýbyggingu undir starfsemina við hlið Þjóðarbókhlöðunnar. Í lok þessa árs verður þó aðeins búið að verja um 13,5 prósentum af söluandvirðinu. Miðað við fréttaflutning af heildarkostnaði vegna byggingar nýs sjúkrahúss er það hlutfall líklegra lægra. Ef upprunalegu lögin hefðu staðist væri hlutfallið tæplega 18 prósent.
Frekari frestanir á framkvæmdum við Sundabraut og Háskólasjúkrahús ásamt áframhaldandi þenslu gera það að verkum að ríkissjóður mun áfram eiga í vandræðum með að eyða Símapeningunum. Nánar í 24 stundum