Getur búist við 4 ára fangelsi

Þórarinn Ingi Jónsson.
Þórarinn Ingi Jónsson.

Þórarinn Jónsson, listnemi í Toronto, gæti átt von á allt að fjögurra ára fangelsi ef hann verður fundinn sekur um óspektir og að raska allsherjarreglu eftir að hafa komið fyrir poka sem á var letrað „Þetta er ekki sprengja“ á listasafni í borginni á miðvikudag.

Uppátækið var hluti af verkefni hans á námskeiði um vídeólist, en olli talsverðu uppnámi í miðborg Toronto. Lögregla og sprengjuleitarsveitir voru kallaðar til og aflýsa þurfti fjáröflunarsamkomu góðgerðarsamtaka um kvöldið. Þórarinn gaf sig fram við lögreglu í fyrradag og var hnepptur í gæsluvarðhald. Honum voru birtar ákærur í gær og síðan sleppt gegn tryggingu.

Ekki náðist í Þórarin í gær, en samkvæmt því sem kanadíska dagblaðið Toronto Star hefur eftir lögfræðingi hans hlaut Þórarinn góðan aðbúnað í fangelsinu um nóttina. Frelsi Þórarins er ýmsum skilyrðum háð, hann má ekki koma inn á lóð listasafnsins, ekki meðhöndla sprengiefni og hann verður að sækja sér faglega ráðgjöf. Blaðið hefur jafnframt eftir rannsóknarlögreglumanninum Leslie Dunkley að brot Þórarins geti varðað allt að fjögurra ára fangelsi. „Þetta er mjög alvarlegt afbrot,“ sagði Dunkley. „Við tökum þau mjög alvarlega og viljum alls ekki ýta undir þau.“

Sjónvarpsstöðin CTV segir háskólann sem Þórarinn stundar nám við, Ontario College of Art and Design, hafa fordæmt gjörðir hans og vikið honum úr námi tímabundið. Að auki hafi tveimur kennurum verið vísað frá störfum á meðan atvikið er rannsakað.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert