Nýbyggingar Háskóla Íslands; Háskólatorg, Gimlir og Tröð, voru vígðar með hátíðarbrag í dag, laugardaginn 1. desember. Byggingarnar eru samtals um 10.000 fermetrar og hýsa fjölþætta þjónustu við nemendur, starfsfólk og gesti Háskólans, deildir og rannsóknastofnanir. „Með þessum breytingum er Háskólinn í raun og sann nýr háskóli,“ sagði Kristín Ingólfsdóttir, rektor, m.a. þegar hún ávarpaði samkomuna.
Við opununarathöfnina ávarpaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra gesti og Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður Háskólasjóðs Eimskips afhjúpaði listaverk Finns Arnar Arnarssonar Vits er þörf þeim er víða ratar sem prýðir miðrými Háskólatorgs. Þá flutti Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor ávarp, einnig Dagný Ósk Aradóttir, formaður Stúdentaráðs Háskólans, Haukur Agnarsson, formaður stjórnar Félagsstofnunar stúdenta og Gunnar Sverrisson, forstjóri Íslenskra aðalverktaka.
Menntamálaráðherrra sagði m.a. vígsluna í dag að með opnun Háskólatorgsins, Gimlis og Traðar hefði mikið og nauðsynlegt verk verið unnið í þágu starfsmanna og ekki síst nemenda Háskóla Íslands. „Þetta framtak mun án efa skila skólanum nær því markmiði sínu að komast í hóp hundrað bestu háskóla í heimi. Það ferðalag er hafið – við erum komin vel á veg – ánægjulegir áfangastaðir hafa verið heimsóttir en enn er drjúgur spölur eftir“, sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Í heild má gera ráð fyrir að um 1500 nemendur og starfsmenn eigi aðstöðu á Háskólatorgi og Gimli en auki þess muni þar leggja leið sína þúsundir aðrir nemendur Háskóla Íslands, starfsfólk og gestir. Fyrsta skóflustunga að byggingunum var tekin 6. apríl 2006 en forsöguna má rekja til rektorstíðar Páls Skúlasonar, sem hafði lengi átt þann draum að byggt yrði á háskólasvæðinu Háskólatorg, vegleg þjónustu- og menningarmiðstöð er gæfi tækifæri og tilefni til aukinna samskipta nemenda, starfsfólks og gesta. Byggingarnefnd Háskólatorgs var skipuð haustið 2003 og hófst þegar handa við undirbúning. Unnin var kröfu- og þarfalýsing sem gegndi lykilhlutverki í alverksútboði í framhaldi af forvali. Ákveðið var að byggingarkostnaður yrði fastur,1.600 milljónir, og var alverktaka og hönnuðum gert að leggja fram lausnir miðað við kröfu- og þarfalýsingu fyrir þá fjárhæð. Tillögurnar voru því eingöngu metnar út frá hönnunarlegum forsendum. Var þetta í fyrsta skipti sem þessari útboðsaðferð var beitt á Íslandi við opinbera framkvæmd.Fimm alverktakar voru valdir til að keppa um hönnun og byggingu Háskólatorgs vorið 2005. Hlutskarpastir í keppninni urðu Íslenskir aðalverktakar ásamt Hornsteinum arkítektum og Teiknistofu Ingimundar Sveinssonar. Happdrætti Háskóla Íslands fjármagnaði stærstan hluta framkvæmdanna. Að auki seldi Háskólinn fasteignir við Aragötu og Oddagötu og Félagsstofnun stúdenta fjárfesti í fimmtungshlut í Háskólatorgi. Framlag Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands nam 500 milljónum og skipti framlagið sköpum um að Háskólatorgið varð að veruleika.
Eftir að verkið hófst var ákveðið að byggja þriðju hæðina á Gimli. Heildarkostnaður við byggingarnar, með verðbótum, opinberum gjöldum og öllum búnaði er um 2,3 milljarðar króna.Nýbyggingarnar hafa undanfarin ár gengið undir nafninu Háskólatorg en skiptast í þrjá hluta. Efnt var til samkeppni innan háskólasamfélagsins um nöfn og hlutskörpust urðu nöfnin Háskólatorg, Gimli og Tröð. Innangengt er milli bygginganna sem tengja að auki saman ýmsar aðrar byggingar á háskólasvæðinu.
Háskólatorg er á svæðinu milli Aðalbyggingar og Íþróttahúss Háskólans. Þar er m.a. veitingasala, stórir fyrirlestrarsalir og alrými sem nýtist fyrir ýmiskonar viðburði. Þar verður einnig þjónustuborð fyrir nemendur og gesti Háskólans. Í Háskólatorgi verða til húsa þjónustustofnanir við nemendur; Félagsstofnun stúdenta, Stúdentaráð Háskóla Íslands, Alþjóðaskrifstofa H.Í., Nemendaskráf H.Í. og Námsráðgjöf auk Bóksölu stúdenta. Einnig lesaðastaða, tölvuver og fleira.
Gimli stendur þar sem áður var bílastæði milli Odda og Lögbergs. Þar verður m.a. lesrými, fyrir nemendur í grunn- og framhaldsnámi, rannsóknastofnanir, vinnurými kennara og skrifstofur deilda. Háskólatorg og Gimli tengjast með Tröð þar sem m.a. eru fyrirhugaðar sýningar á vegum Listasafns Háskóla Íslands.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, sagði í dag að byggingarnar sem nú eru teknar í notkun skapi skólanum stórkostlega umgjörð „til að sinna sínu mikilvæga hlutverki – hér eru glæsilegir fyrirlestrasalir, aðstaða til rannsókna, kennslustofur, tölvuver, lesrými, matsalur, þjónusta við stúdenta og starfsfólk. Jafnframt tengjast þessar byggingar öðrum byggingum og gerbreyta notkunarmöguleikum þeirra. Með þessum breytingum er Háskólinn í raun og sann nýr háskóli.”
Kristín sagði jafnframt: „Þessar glæsilegu byggingar eru einstaklega góður rammi þeirrar metnaðarfullu stefnu sem við höfum mótað og sem mótar í dag allt starf skólans. Megininntak stefnunnar er að skila samfélaginu hámarksarði af þeirri fjárfestingu sem það hefur lagt í þessa mikilvægu menntastofnun. Það gerir skólinn með því að verða betri skóli, með því að skipa sér í fremstu röð.Við náum hér í dag mikilvægum áfanga á þessari leið.“