Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði íhuga að skilgreina eitt af gömlu iðnaðarsvæðunum í bænum sem athafnasvæði en á slíkum svæðum er leyfilegt að hafa starfsmannabústaði. Verði svæðinu breytt opnast farvegur fyrir slökkvilið höfuðborgarsvæðisins að gera kröfur um úrbætur á húsnæði þegar þess er þörf. Það getur slökkviliðið ekki þegar um ólöglegt húsnæði er að ræða.
Bráðabirgðaákvæði sem sett var inn í lög um brunavarnir síðastliðið vor og heimilar slökkviðliðsstjóra að gera kröfu um úrbætur þótt notkun húsnæðisins stangist á við skipulag stangast nefnilega sjálft á við ákvæði í lögum um skipulags- og byggingarmál.
Bjarki Jóhannesson, sviðsstjóri skipulags- og byggingarsviðs Hafnarfjarðar, segir að rætt hafi verið um að breyta landnotkun í einu hverfi. ,,Þetta er í skoðun hjá okkur en það hefur ekki verið ákveðið enn. Starfsemin í gömlu iðnaðarhverfunum er að breytast. Skrifstofum í þeim er að fjölga og verið er að flytja verkstæði úr þeim í nýrri iðnaðarhverfi sem við myndum þá halda sem hreinum iðnaðarhverfum."
Nánar í 24 stundum