Lýsið langdýrast í apótekum

Eftir Frey Rögnvaldsson - freyr@24stundir.is

Gríðarlegur verðmunur er á lýsisperlum í apótekum annars vegar og stórmörkuðum hins vegar. Samkvæmt verðkönnun 24 stunda sem gerð var í gær eru 500 lýsisperlur nálega tvöfalt dýrari í apóteki Lyfju í Lágmúla heldur en í verslun Bónuss í Hraunbæ.

Í Bónus kostuðu lýsisperlurnar 1.088 krónur en í Lyfju kostuðu þær 1.979 krónur. Í könnuninni var verð á fleiri vörum sem almennt eru seldar bæði í apótekum og dagvöruverslunum kannað. Í öllum tilfellum utan tveggja var verð talsvert hærra í apótekum en í stórmörkuðum.

Á fundi Rannsóknarstofnunar um lyfjamál við Háskóla Íslands í fyrradag sagði Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, að samkeppnisleg rök mætti færa fyrir því að leyfa sölu á ákveðnum lyfjum sem ekki væru lyfseðilsskyld, víðar en í apótekum. Dæmi um slík lyf væru meðal annars nikótínlyf og væg verkjalyf. Könnun 24 stunda sýnir að vörur sem bæði apótek og stórmarkaðir selja nú eru almennt ódýrari í síðarnefndu verslununum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert