Umferðarátak gekk vel

Lögreglan segir þá ökumenn sem hún hafði afskipti af í …
Lögreglan segir þá ökumenn sem hún hafði afskipti af í gærkvöldi hafa verið almennt ánægða með framtak lögreglunnar. mbl.is/Júlíus

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hóf sérstakt átak gegn ölvunarakstri í gærkvöldi, en átakið stendur til áramóta. Lögreglan var með eftirlit við Sæbraut gegnt Kirkjusandi kl. 21 í gærkvöldi og voru 450 ökutæki stöðvuð.

Að sögn lögreglu var einn ökumaður grunaður um ölvun við akstur, einn ók undir áhrifum vímuefna og þá var einn ökumaður réttindalaus.

Lögregla segir einn ökumann hafa ekið gegn lokun. Lögreglumenn hófu eftirför og var ökumaðurinn stöðvaður stuttu síðar.

Lögreglan flutti sig upp í Árbæ síðar um kvöldið. Þar voru 19 ökumenn stöðvaðir. Einn þeirra reyndist vera undir áhrifum áfengis. 

Að sögn varðstjóra voru lýstu bílstjórar sem lögreglan stöðvaði í gærkvöldi yfir almennri ánægju með framtak lögreglunnar.

Í átakinu verður skipulegu eftirliti haldið úti á ýmsum tímum sólarhrings og á mismunandi stöðum í umdæminu. Markmið þess er að vekja athygli á þeirri hættu sem stafar af ölvunarakstri og hvetja fólk til almennrar varkárni í umferðinni.

Þá stefnir lögreglan að auknu sýnilegu eftirliti á og við stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu, inni í íbúðahverfum og við verslunarmiðstöðvar. Þannig muni lögreglan leggja sitt af mörkum til að íbúar og aðrir sem dvelja á höfuðborgarsvæðinu geti átt ánægjulegar stundir við jólaundirbúning á komandi vikum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert