Margir árekstrar fyrir norðan

Sjö umferðaróhöpp hafa verið tilkynnt til lögreglunnar á Akureyri í dag. Að sögn lögreglu má rekja öll óhöppin til slæmrar færðar og hálku en mikið hefur snjóað í dag. Engin alvarleg slys urðu á fólki.

Um kl. 12:30 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að hún hafnaði í Eyjafjarðará. Lögreglan segir ökumann hafa sloppið án meiðsla. Bifreiðin skemmdist hinsvegar mikið.

Klukkustund síðar missti annar ökumaður stjórn á bifreið sinni í krapa. Bifreiðin hafnaði á ljósastaur sem stendur við göngustíg við Akureyrarkirkju. Bifreiðin skemmdist mikið og þurfti að kalla eftir dráttarbifreið til að draga hana á brott.

Þá þurfti að sækja ónýta bifreið á Vaðlaheiði um þrjú í dag. Bifreiðinni hafði verið lagt út í vegarkanti og ók önnur bifreið á hana með þeim afleiðingum að sú kyrrstæða fór út af veginum. Sama var uppi á teningnum hjá umræddum ökumanni, en hann missti stjórn á ökutækinu í hálku. Ökumann sakaði ekki en báðir bílarnir eru mikið skemmdir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert