Kveikt var á jólatré á Ráðhústorginu á Akureyri síðdegis í gær að viðstöddu fjölmenni og þá voru einnig tendruð ljós á jólatré Húsvíkinga og á Sauðárkróki.
Tréð á Akureyri er gjöf vinbæjarins Randers í Danmörku eins og venjulega. Við athöfnina fluttu ávörp sendiherra Dana á Íslandi, Leif Mogens Reimann, og bæjarstjórinn á Akureryi, Sigrún Björk Jakobsdóttir. Stúlknakór Glerárkirkju söng og jólaveinar mættu á staðinn.
Jólsveinar voru einnig á sveimi á Húsavík, ættaðir úr Dimmuborgum. Þeir sungu og dönsuðu í kringum jólatréð með börnunum auk þess sem þeir færðu þeim kerti og mandarínur úr pokum sínum. Sveinarnir, sem voru fjórir að þessu sinni, þurftu síðan að hafa hraðann á því árlegt jólabað þeirra bræðra í Jarböðunum við Mývatn var í gærkvöldi.
Á Sauðárkróki var mikið um dýrðir sem annars staðar, en jólatréð þar í bæ er gjöf frá vinabænum Kongsberg í Noregi.