Bátur sökk í höfninni í Stykkishólmi aðfararnótt laugardags. Að sögn lögreglu var báturinn, sem heitir Fanney RE 31, smíðaður árið 1967. Hann hafði verið bundinn við bryggju sl. ár.
Lögreglan segir að báturinn hafi verið dreginn til Stykkishólms frá
Ólafsvík fyrir ári. Stefnt hafði verið að því að draga bátinn til Reykjavíkur á næstunni.
Lögreglan segir að báturinn hafi verið orðinn gamall og lúinn, og viðhald mjög lítið. Þá lak hann og var reglulega dælt úr honum.
Olía lak úr bátnum í sjóinn, en að sögn lögreglu var ekki um mikið magn að ræða.
Málið er í rannsókn.