„Íbúar hér í bænum eru slegnir yfir þessum atburði og sýna samhug sinn í verki,“ segir séra Sigfús Baldvin Ingvason, prestur í Keflavíkurkirkju. Margir lögðu leið sína að slysstað við Vesturgötu í Reykjanesbæ með útikerti og blóm til minningar um litla drenginn sem lést eftir að keyrt var á hann þar sl. föstudag. Kyrrðar- og bænastund var haldin í Keflavíkurkirkju sl. laugardag og önnur bænastund verður í kirkjunni í dag kl. 18.
Karlmaður á fertugsaldri var í Héraðsdómi Reykjaness síðdegis í gær úrskurðaður í gæsluvarðhald til fimmtudags á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Maðurinn var handtekinn í Reykjanesbæ síðdegis á laugardag, en hann er grunaður um að vera valdur að banaslysinu. Ekið var á drenginn á mótum Vesturgötu og Birkiteigs og flúði ökumaður af vettvangi. Drengurinn lést á gjörgæsludeild Landspítalans á laugardag.
Lögreglan á Suðurnesjum lýsti í kjölfar slyssins eftir bláum skutbíl sem sást yfirgefa vettvanginn og barst að sögn Gunnars Schram, yfirlögregluþjóns lögreglunnar á Suðurnesjum, fjöldi ábendinga sem enn er verið að vinna úr.
Að sögn Gunnars hóf lögreglan á grundvelli ábendinganna skipulegt eftirlit með bílum í bænum sem passað gætu við lýsingar á árekstrarbílnum. Segir hann bílinn hafa verið stöðvaðan í akstri um bæinn síðdegis á laugardag og manninn sem handtekinn var hafa verið undir stýri. Aðspurður segist Gunnar ekki geta tjáð sig um það hvort grunur leiki á að maðurinn hafi verið ölvaður þegar slysið varð, en staðfestir að tekin hafi verið bæði blóð- og þvagsýni úr manninum við handtöku.
Að sögn Gunnars var maðurinn yfirheyrður á laugardag, en hann hefur ekki játað að vera sá sem ók á drenginn. Aðspurður segir Gunnar skemmdir sjáanlegar á bílnum og gætu ummerkin passað við ákeyrsluna. Lögreglan á Suðurnesjum óskaði eftir aðstoð frá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við að rannsaka bílinn og stendur sú rannsókn enn yfir.