Bónus gefur 25 milljónir til hjálparstarfs innanlands

Bónus færir nú Hjálparstarfi kirkjunnar og Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar og Akureyrar 25 milljónir króna að gjöf. Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og Hjálparstarf kirkjunnar munu eins og liðin ár taka höndum saman um jólaaðstoð í Reykjavík og á landsbyggðinni og fer meginhluti fjárins í það verkefni.

Í tilkynningu segir, að vegna sérstakra óska til Bónus hafi verið ákveðið að eyrnamerkja ákveðnar upphæðir til mæðrastyrksnefndanna í Hafnarfirði, Kópavogi og á Akureyri svo þær gætu sjálfar séð um aðstoð í sínum bæjarfélögum. Féð verði  notað til að aðstoða þá sem við bágust kjör búa nú þegar jólahátíðin er framundan. Hjálparstarf kirkjunnar mun vinna með prestum og fagfólki á landsbyggðinni að úthlutun þar.

Samtals verða gefin út 5000 gjafakort frá verslunum Bónuss, hvert að andvirði 5000 krónur. Gjafakortin eru nú í fyrsta skipti rafræn og eru því notuð eins og debetkort með 5000 króna inneign. Handhafar kortanna geta keypt vörur að eigin vali í Bónus.

Á liðnum fimm árum hefur Bónus gefið þessum félögum 91 milljón króna. Jóhannes Jónsson, kaupmaður í Bónusi, segir í tilkynningunni, að honum sé vel ljóst að neyðin sé víða mikil hjá fjölskyldum um land allt. Eigendum og stjórnendum fyrirtækisins sé mikils virði að geta látið gott af sér leiða. Bónus hafi notið mikillar velgengni og velvildar í gegnum árin og fyrir það sé vert að þakka með þessum hætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert