Ekki frekari inngrip í starfsemi lífeyrissjóða

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að ríkisstjórnin geti ekki og muni ekki beita sér fyrir frekari inngripi í starfsemi lífeyrissjóðanna með nýjum fyrirheitum um fjárveitingar.

Geir var að svara fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni um lækkun greiðslna til öryrkja frá lífeyrissjóðum. Sagði Steingrímur að 16-1700 öryrkjar hefðu orðið fyrir þessu um mánaðamótin og spurði hvort ríkisvaldið væri tilbúið að koma með aukna fjármuni til þessa máls svo hægt yrði að leiðrétta þá skerðingu, sem fólk hefði orðið fyrir.

Geir sagði, að lífeyrissjóðirnir væru að bregðast við aðstæðum í eigin ranni á grundvelli samþykkta sjóðanna sjálfra. Þessi viðbrögð sjóðanna væru að sjálfsögðu ekkert fagnaðarefni en þessari aðgerð hefði verið frestað í fyrra til að kanna hvort hægt væri að ganga mildara til verks og sú varð raunin þá.

Geir sagði, að félagsmálaráðherra hefði í haust boðið fram sérstaka fyrirgreiðslu upp á 100 milljónir til að freista þess að fá lífeyrissjóðina ofan af þessum áformum. Þessari málaleitan hefði verið hafnað og þar við sæti. „Ríkisstjórnin getur ekki og mun ekki beita sér fyrir frekari inngripi í starfsemi lífeyrissjóðanna með frekari fyrirheitum um fjárveitingar," sagði hann.

Hann bætti við, að við 2. umræðu um fjárlög hefði komið fram, að ríkisstjórnin muni með almennari hætti leita leiða til að breyta almannatryggingalögum til hagsbóta fyrir aldraða og öryrkja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka