Flestir sammála um að vilja sjá á bak verðtryggingunn

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segist taka undir orð Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings, um að rétt sé að í framtíðinni skuli stefnt að afnámi verðtryggingar. Hann segir það vera óskastöðu og að flestir séu áreiðanlega sammála um að vilja sjá á bak henni. Eins og staðan sé núna sé veruleikinn þó íslenska krónan.

„Kjarni málsins er að framtíðartónlistin er afnám verðtryggingar og stöðugt efnahagslíf, þar sem verðbólgan er við eða undir viðmiðunum Seðlabankans,“ segir Björgvin. Hann segir engar einfaldar leiðir til að þessu markmiði, en algjört jafnvægi í íslensku hagstjórninni eða upptaka evru þurfi að koma til. Auk þess þurfi lánastofnanir og lífeyrissjóðir að koma að málum ef afnema eða minnka eigi hlut verðtryggingar í hagkerfinu.

„Fram til þessa hafa lánastofnanir ekki verið tilbúnar að lána, í okkar litla gjaldmiðli, til lengri tíma, nema verðtryggð lán. Okkur býðst að taka óverðtryggð lán til styttri tíma eða í erlendum myntum,“ segir Björgvin og bendir á að verðtrygging þekkist ekki á evrusvæðum. „Verðtryggingin er á einhvern hátt fylgifiskur krónunnar sem örmyntar í landamæralausum fjármálaheimi.“ Björgvin segir að viðhorf Hreiðars Más til verðtryggingar hljóti að benda til þess að bankar séu nú að einhverju leyti tilbúnir að fylgja því eftir með því að bjóða fólki óverðtryggð lán til lengri tíma.

Innganga í ESB einfaldasta leiðin

Inngöngu í ESB telur Björgvin vera einföldustu leiðina til að afnema verðtrygginguna; að renna krónunni saman við aðra stærri. „Á það ber að líta að almenningur tekur lán í erlendum myntum í æ ríkari mæli, 12-14% lántaka er þannig í dag þrátt fyrir gengisáhættuna. Það kemur til af því að erlend lán eru óverðtryggð og á lágum vöxtum. Hvort hægt er að ná því ástandi hér innanlands, með okkar litla gjaldmiðil, verður bara að koma í ljós. Ég tek hins vegar undir með forstjóra Kaupþings að leiðirnar eru þessar; algjört jafnvægi á íslensku efnahagskerfi eða upptaka evru,“ segir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert