Þrír trúnaðarmenn og tveir varatrúnaðarmenn hjá Strætó hafa sagt sig frá afskiptum af trúnaðarmannastörfum fyrir Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Ástæðan er sögð deilur við yfirmenn og óánægja með samskipti við þá.
Á vefsíðu sem trúnaðarmennirnir fyrrverandi halda úti, þrír trúnaðarmenn og tveir varatrúnaðarmenn, segir að upphaf atburðarrásar sem varð til þess að viðkomandi sögðu af sér trúnaðarmannastörfum megi rekja til 27. nóvember er trúnaðarmannaskipti fóru fram í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. Boðið var upp á áfengi að fundinum loknum.
Kvartað var undan ölvun sex manna hóps fyrrverandi og núverandi trúnaðarmanna að fundinum loknum er þeir hugðust taka strætisvagn til síns heima frá Hlemmi.
Kvartað var undan því að starfsmenn væru undir áhrifum áfengis á starfstöð Strætó bs. og stóð í kjölfarið til að áminna trúnaðarmennina. Fimmmenningarnir segja viðbrögð fyrirtækisins í engu samræmi við það sem átti sér stað og að ölvun þeirra eða hegðun hafi ekki verið „óeðlileg".
Þá gagnrýna trúnaðarmennirnir að lögregla hafi verið kölluð til að stöðva för eins trúnaðarmannanna daginn eftir vegna grun um að viðkomandi væri enn undir áhrifum vegna drykkju daginn áður.
Maðurinn reyndist ekki undir áhrifum, en á vefsíðunni eru aðferðir harðlega gagnrýndar og segir að framkvæmdastjóra hafi borið að hefta för trúnaðarmannsins áður en hann ók af stað ef grunur lék á um að hann væri undir áhrifum og er framkvæmdastjórinn sakaður um að hafa notað lögreglu til eineltis.
Jóhannes Gunnarsson, fyrrum 1. trúnaðarmaður, segir að engin viðbrögð hafi enn borist frá fyrirtækinu vegna afsagnanna. Hann segir að í það sjálfur sé hann farinn að hugsa sér til hreyfings, og að launin séu ekki nógu góð til að það borgi sig að standa í stappi við yfirmenn. Jóhannes segir að í það minnsta 60% vagnstjóra hafi hætt störfum eftir að nýju leiðakerfi var komið á, og að það sé mun meira en megi skýra einungis með stöðunni í þjóðfélaginu.