Skrifstofa Grímseyjarhrepps var innsigluð síðdegis á föstudag. Bjarni Magnússon hreppstjóri segist hafa gert það samkvæmt fyrirmælum þeirra tveggja manna sem sitja í hreppsnefnd auk oddvitans.
„Þeir voru báðir staddir á meginlandinu og báðu mig um að innsigla skrifstofuna. Þeir sögðu mér að eitthvað alvarlegt væri á ferðinni, trúlega í sambandi við bókhald. Ég fékk leyfi hjá sýslumanni og innsiglaði síðan skrifstofuna,“ sagði Bjarni í samtali við Morgunblaðið.
Oddviti Grímseyjarhrepps var fyrir nokkrum dögum dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa dregið sér 12.900 lítra af olíu sem hann nýtti til þess að hita upp heimili sitt og verslunarhúsnæði í Grímsey, en maðurinn var umboðsmaður Olíudreifingar.
Það, að skrifstofa hreppsins skyldi innsigluð, tengist ekki dómnum.