Óskað var eftir aðstoð lögreglu aðfaranótt sunnudags að Draugabarnum á Stokkseyri vegna skemmda á bifreið og slagsmála. Tveir lögreglumenn fóru á staðinn og segir lögreglan á Selfossi, að þegar þeir komu á staðinn hafi nokkur ólga verið í nokkrum ungum mönnum sem þar voru.
Einn hafði sig mest í frammi og þegar lögreglumenn ætluðu að taka hann úr umferð streyttist hann á móti og hafði í hótunum við lögreglumenn og sparkaði og beit í þá. Hann var yfirbugaður þrátt fyrir að nokkrir í hópnum veittust að lögreglumönnunum og reyndu að hindra handtökuna.
Lögreglan segir, að ekki hafi verið hægt að senda fleiri lögreglumenn í þetta verkefni þar sem þeir voru bundnir annarstaðar. Leitað var eftir aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra en þegar sú aðstoð barst var farið að slakna á æsingahópnum.