Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, mótmæltu því harðlega á Alþingi undir kvöld, að taka ætti til umræðu frumvarp um breytingu á þingsköðum Alþingis.
Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, leggur frumvarpið fram ásamt þingflokksformönnum annarra flokka á þingi utan VG.
Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður VG, sagðist harma þau vinnubrögð, sem forseti þingsins, ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hefðu viðhaft í málinu. Þá sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, að að forseti Alþingis hefði brugðist skyldu sinni að reyna að ná sátt um málið.
Þingflokkur VG hélt blaðamannafund í dag þar sem kynnt var greinargerð flokksins um málið. Þar kemur m.a. fram, að flokkurinn vilji endurskipuleggja starfshætti Alþingis, þróa Alþingi í átt til faglegri og fjölskylduvænni vinnustaðar og gera breytingar sem raunverulega styrki þingið, þingræðið og lýðræðið í landinu. Þessum markmiðum nái hins vegar hvorki óbreytt frumvarp forseta þingsins og þaðan af síður þau vinnubrögð, að rjúfa hefð um samstöðu um slík mál og keyra þau áfram í ágreiningi við stærsta flokk stjórnarandstöðunnar.