Alcoa veitti í dag Þjóðminjasafni Íslands styrk úr samfélagssjóði sínum til endurbóta og uppbyggingar Sómastaðahússins í Reyðarfirði. Styrkurinn nemur um 16 milljónum króna og verður hann veittur til verkefnisins á næstu þremur árum.
Sómastaðir við Reyðarfjörð, sem útvegsbóndinn Hans Jakob Beck byggði ári 1875, er eina portbyggða steinhúsið sem varðveist hefur á Íslandi. Sómastaðir komust í vörslu Þjóðminjasafns Íslands árið 1988.
Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, tók við styrknum úr hendi Tómasar Más Sigurðssonar, forstjóra Alcoa Fjarðaáls. Meðal viðstaddra voru Ásta Beck, dóttir húsbyggjandans Hans Jakobs Becks, en hún fæddist og ólst upp að Sómastöðum, og Þór Jakobsson, veðurfræðingur og formaður félags niðja Richards Long, en Richard Long var afi Hans Jakobs Becks.
Hans Jakob Beck hlóð steinhúsið að Sómastöðum úr grjóti í nágrenninu og batt með jökulleir. Grunnflötur hússins er um 37 fermetrar, undir því er kjallari og nýtanlegt pláss er í risi. Hans Jakob var tvíkvæntur 23 barna faðir. Hafist var handa við viðgerðir á Sómastöðum árið 1991, en framkvæmdir hafa legið niðri um nokkurt skeið.
Styrkurinn verður nýttur til þess að vinna tímabærar endurbætur á húsinu og færa það nærri upprunalegu horfi.