Árs fangelsi fyrir fjölda brota

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 12 mánaða fangelsi fyrir fjölda brota. Maðurinn, sem er síbrotamaður, var einnig dæmdur til að greiða tryggingafélagi 436  þúsund krónur í skaðabætur. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í september.

Maðurinn var m.a. sakfelldur fyrir þjófnaði, hylmingu, nytjastuld, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Fram kemru í dómnum, að maðurinn noti fíkniefni reglulega og í ljósi brotaferils hans verði að telja fyrir liggja, að hann fjármagni fíkni­efnaneyslu sína að miklu leyti með afbrotum.

Maðurinn, sem er fæddur árið 1966, á að baki samfelldan sakaferil frá árinu 1985. Hann samtals 30 sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Hann hlaut m.a. 2 ára fangelsisdóm árið 2004 og 12 mánaða dóm árið 2006 fyrir þjófnað, fjársvik og réttindaleysisakstur. Þá kemur fram, að hann hefur strokið úr fangelsi þegar hann var að afplána refsidóm og hélt áfram afbrotum á meðan hann gekk laus.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert