„Það blasir við að það þarf að tvöfalda veginn á Kjalarnesi og tvöfalda [Hvalfjarðar]göngin miðað við þá umferðaraukningu sem orðið hefur og útlit er fyrir að verði á næstu árum,“ segir Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar.
„Spurningin er sú hvernig menn vilja taka á málinu og hvort menn hafa einhvern hug á því að Spölur komi að því með einhverjum hætti eða ekki,“ bætir hann við.
Stjórn Spalar ehf. bíður nú svara frá ríkisstjórninni um mögulega þátttöku Spalar í tvöföldun Hvalfjarðarganga. Stjórnin hefur kynnt Kristjáni L. Möller samgönguráðherra þrjá kosti sem félagið og ríkisvaldið standi frammi fyrir varðandi málefni Spalar og ganganna vegna uppgreiðslu skulda, gjaldskrár ganganna, hugsanlegrar aðildar Spalar að tvöföldun ganganna og þess verkefnis ríkisins að tvöfalda veginn á Kjalarnesi. Stjórn Spalar ætlar að taka afstöðu til málsins á næstunni og telur hún að það þurfi stjórnvöld sömuleiðis að gera.