Fingrafaralesarar í lagi

Persónuvernd gerir ekki athugasemdir við notkun fingrafaralesara við afgreiðslu máltíða í mötuneytum Víðistaðaskóla og Setbergsskóla. Erindi höfðu borist frá foreldrum barna í skólunum.

Í niðurstöðu Persónuverndar er vísað til bréfaskipta við félagið Hollt í hádeginu, sem rekur lesarana en þar kom m.a. fram að ekki væri unnið með fingrafaramyndir, heldur væri fingraförum umbreytt í einkvæmar talnarunnur sem væru tengdar kennitölum barnanna og þannig notaðar til þess að staðreyna hvort barn væri í áskrift hjá fyrirtækinu.

Einnig kom fram að leitað væri eftir samþykki foreldra og forsjármanna nemenda fyrir lestri fingrafara og að börnum þeirra, sem ekki vildu veita slíkt samþykki, stæði til boða að nota matarkort í staðinn. Þá yrðu upplýsingarnar ekki notaðar í öðrum tilgangi en til afgreiðslu máltíða.

Segir Persónuvernd, að slík valkvæð notkun fingrafaralesara við afgreiðslu máltíða sé ekki talin brjóta í bága við ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert