Fjöldi eigna undir hamarinn

Nauðungaruppboðum á fasteignum hefur fjölgað gríðarlega það sem af er ári ef miðað er við síðustu tvö ár. Einkum hefur þeim fjölgað hjá stóru sýslumannsembættunum.

Hvergi er þessi þróun þó meira áberandi en í umdæmi sýslumannsins á Selfossi. Það sem af er ári hefur 101 fasteign verið boðin upp í umdæminu samanborið við einungis 19 fasteignir á síðasta ári.

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, segir að þetta séu ýmiss konar eignir sem verið sé að bjóða upp. „Þetta tengist auðvitað því að það er gríðarlega mikil uppbygging í samfélaginu hérna, mikil þensla í efnahagslífinu og menn virðast hafa ætlað sér ákveðna sneið af kökunni sem hefur ekki gengið eftir í öllum tilvikum."

24 stundir höfðu samband við stóru viðskiptabankana og leituðu skýringa á þessari sveiflu hjá þeim. Friðrik S. Halldórsson, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs hjá Kaupþingi, segir ekkert benda til að vanskil séu að aukast hjá bankanum. „Við sjáum ekkert óeðlilegt og höfum ekki áhyggjur af stöðunni eins og hún er núna."

Viðmælendur hjá Landsbanka og Glitni höfðu svipaða sögu að segja. Síðustu tvö ár hefðu vanskil og þar af leiðandi uppboð verið í sögulegu lágmarki almennt og ekkert benti til breytinga þar á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert