Gæsluvarðhald fellt úr gildi

Hæstiréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að Lithái, sem handtekinn var hér á landi eftir að hafa verið settur í endurkomubann, sæti gæsluvarðhaldi til 7. desember. Maðurinn var hins vegar dæmdur í farbann til sama tíma.

Um er að ræða Tomas Malakauskas, sem dæmdur var í 2½ árs fangelsi árið 2005 fyrir aðild að svonefndu líkfundarmáli. Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að Tomas hafi breytt eftirnafni sínu með samþykki yfirvalda í Litháen og þar hafi hann fengið ný skilríki.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram, að Tomas hafi í október í fyrra verið  veitt reynslulausn í 2 ár á eftirstöðvum refsingar. Honum var vísað á brott af Íslandi og bönnuð endurkoma í 10 ár. Hann var síðan fluttur úr landi í fylgd þriggja lögreglumanna til Vilnius í Litháen.

Tomas var síðan handtekinn í bíl í Hafnarfirði í nóvember sl. og við leit á honum á lögreglustöð fundust 25,62 grömm af amfetamíni. Gefin hefur verið út ákæra á hendur honum þar sem honum er gefið að sök fíkniefnalagabrot og  brot gegn lögum um útlendinga fyrir að virða ekki endurkomubannið.

Fram kemur að búið sé að flytja málið í héraðsdómi og verði dómur kveðinn upp 7. desember.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka