Grímseyjarferjan afhent á morgun

Guðmundur Víglundsson í vörulest á þilfari.
Guðmundur Víglundsson í vörulest á þilfari. mbl.is/RAX

Starfsmenn Vélsmiðju Orms og Víglundar (VOOV) í Hafnarfirði unnu í gær að tiltekt, málningu og lokafrágangi á þeim verkþáttum sem vélsmiðjan tók að sér. Verið var að taka bakborðsakkerið um borð og rann akkeriskeðjan með skruðningum yfir nýja perustefnið.

Guðmundur Víglundsson, framkvæmdastjóri VOOV, sagði að skipið hefði verið endurnýjað nánast frá kili og upp í mastur auk þess sem gerðar voru á því verulegar breytingar. Á skrokkinn var sett perustefni sem auka á sjóhæfni skipsins, byggð vöruflutningalest á þilfar og settar vökvaknúnar hurðir og lúgur á lestar.

Þá var settur vökvaknúinn rampur á skut skipsins svo hægt verður að aka tækjum og bílum að og frá borði. Vélbúnaður allur og skrúfubúnaður var tekinn upp og endurnýjaður, að undanskildum gírum aðalvéla. Um borð í skipinu eru alls sjö vélar, tvær aðalvélar og fimm ljósa- og hjálparvélar.

Aðstaða fyrir farþega verður í tveimur sölum. Í farþegasal á efra þilfari er gert ráð fyrir 57 stólum og þar verða sjónvarpsskjáir til afþreyingar auk þess sem farþegar geta notið útsýnis um stóra glugga sem eru á þrjá vegu. Á neðra þilfari verður veitingasalur og eldhús. Þar er líka svonefndur sjúkraklefi, það er klefi með einni koju og tveimur legubekkjum. Gert er ráð fyrir því að áhöfnin geti gist um borð í skipinu ef þörf krefur, t.d. ef það tefst vegna veðurs. Neðan þilja eru fjórir klefar fyrir áhöfn og klefi fyrir skipstjórann í brú.

Guðmundur taldi mikilvægt að hafa fengið þetta verkefni unnið hér innanlands. Það stuðlaði að varðveislu mikilvægrar verkþekkingar á skipasmíðum og skipaviðgerðum. Hann taldi gagnrýni á tafir og hækkun kostnaðar vera óréttmæta, því verkið væri unnið eftir föstu einingaverði. Umfang verksins hefði hins vegar orðið miklu meira en upphaflega var gert ráð fyrir.

Nokkur atriði eftir

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert