Slysum hefur fækkað verulega á þrennum gatnamótum eftir að þeim var breytt úr ljósastýrðum gatnamótum í hringtorg, samkvæmt gögnum frá Umferðarstofu og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar hefur óhöppum án slysa á þessum sömu gatnamótum fjölgað. Könnuð voru þrenn gatnamót, ein í Garðabæ og tvenn í Hafnarfirði.
Kristján Ólafur Guðnason hjá umferðardeild lögreglunnar telur þetta vera athyglisverðar niðurstöður, þar sem umferð hefur aukist en slysum fækkað.Kristján segir umferðaröryggi af þessum tölum að dæma virðast vera meira í hringtorgum á miðað við ljósastýrð gatnamót.
Kristján segir einnig, að skýringin geti verið sú að í hringtorgum er umferðarhraðinn lægri, og bílar mætast ekki í hringtorgum eins og á hefðbundnum ljósastýrðum gatnamótum, og því er hættan minni. Þróunin á slysum er sú sama á öllum gatnamótunum sem voru könnuð.
Fram kemur í skýrslunni að minniháttar óhöppum án slysa á fólki hafi fjölgað. Óhöppum fjölgaði á gatnamótunum í Hafnarfirði en stóð í stað í Garðabæ. Aðspurður segir Kristján skýringuna á auknum umferðaróhöppum geta verið að finna í aukinni umferð, og stækkun byggðar. Til dæmis hafi byggð í Hafnarfirði stækkað verulega sunnan við hringtorg Reykjanesbrautar, Lækjargötu og Hlíðarbergs.„Árekstrar virðast vera í hlutfalli við umferðaraukninguna þó það hafi ekki verið rannsakað nákvæmlega og kann að skýra hvers vegna óhöppum hefur fjölgað,” sagði Kristján.
Slysum á Reykjanesbraut/Lækjargata/Hlíðarberg gatnamótunum fækkaði eftir breytingu í hringtorg úr 7 á árunum 2000-2003 í 1 á árunum 2004-2007 og fækkaði slösuðum úr 18 í 2 eða um 89%.
Á sama tíma fækkaði slysum úr 8 í 3 á gatnamótum Flatahrauns og Fjarðarhrauns eftir breytingu í hringtorg, og slösuðum fækkaði úr 16 í 3 eða um 81%