Tappi í klórgeymi við sundlaugina í Laugaskarði gaf sig aðfararnótt föstudagsins 30. nóvember með þeim afleiðingum að umtalsvert magn af klór lenti í læk sem rennur í Varmá. Klórgeymirinn var í öryggiskari sem brást þegar á reyndi. Áætlað er að magn klórs í geyminum geti hafa verið um 800 lítrar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hveragerðisbæ.
Þar segir að tilkynning hafi borist bæjarskrifstofu á þriðjudagsmorgni og samstundis hafi verið boðað til fundar með fulltrúum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Vinnueftirliti ríkisins, vatnalíffræðingi frá Rannsókna og fræðasetri Háskóla Íslands í Hveragerði, forstöðumanni sundlaugar, skipulags- og byggingafulltrúa og bæjarstjóra. Á fundinum var farið yfir stöðu málsins, viðbrögð og aðgerðir. Búið er að gera við klórgeyminn og hefur verkfræðistofu verið falið að gera úrbótaáætlun svo atburðir sem þessir endurtaki sig ekki. Ennfremur hefur vatnalíffræðingi verið falið að rannsaka lífríki árinnar til að kanna hvaða áhrif atburðurinn hefur haft á það. Veiðimálastofnun hefur ennfremur verið upplýst um málið.
Að svo stöddu er ekki hægt að fullyrða um áhrif atburðarins á lífríki árinnar hvorki til lengri eða skemmri tíma. Gert er ráð fyrir að niðurstöður rannsóknarinnar liggi fyrir fljótlega, segir í tilkynningunni.
Þá segir að forsvarsmenn Hveragerðisbæjar líti þennan atburð mjög alvarlegum augum enda sé Varmá stolt bæjarbúa þar sem veiði hefur aukist stöðugt undanfarin ár. Allt verði gert sem mögulegt er til að koma í veg fyrir að atburður sem þessi endurtaki sig.