Markmið Íslands í loftslagsviðræðum kynnt

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ómar

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar kynntu í upphafi þingfundar á Alþingi í dag þau markmið, sem mótuð hafa verið af hálfu íslenskra stjórnvalda í viðræðum um nýjan loftslagssamning, sem taka á við af Kyoto-sáttmálanum.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sagði að íslensk stjórnvöld legðu ríka áherslu á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50-75% fyrir árið 2050. Á fundi aðildarríkja loftslagssamningsins, sem nú stendur yfir á Bali í Indónesíu, muni íslensk stjórnvöld leggja höfuðáherslu á, að samstaða náist um gerð nýs samkomulags sem feli í sér skuldbindingar fyrir öll helstu losunarríki heims.

Þórunn sagði, að nýtt samkomulag þurfi að taka mið af þeirri leiðsögn vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um að hlýnun lofthjúps jarðar verði ekki meiri en 2 gráður umfram það sem var í upphafi iðnbyltingar. Það feli í sér að iðnríki dragi úr losun gróðurhúsaloftegunda um 25-40% fyrir árið 2020.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sagði að hafinn væri undirbúningur þess, að Ísland geti nýtt sér sveigjanleika Kyoto-bókunarinnar, sem heimilar ríkjum að afla sér losunarheimilda með kaupum eða þátttöku í verkefnum erlendis, sem stuðluðu að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.

Þingmenn VG lýstu yfir mikilli óánægju með yfirlýsinguna og sögðu að í henni væri engar skuldbindingar að finna af hálfu Íslands. Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokks, sagði einnig, að fátt nýtt hefði verið í yfirlýsingunni heldur væru þetta markmið sem áður hefðu verið mótuð. Sagði Guðni, að Samfylkingin hefði greinilega borðað framsóknargrautinn góða við ríkisstjórnarborðið í morgun og flokkurinn væri skynsamari en hann hélt. 

Áherslur ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka