Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra segir það hafa verið mikið álitamál hvort afnema ætti verðtryggingu lána. Enginn vafi leiki á að verðtryggingin hafi gegnt mikilvægu hlutverki á undanförnum árum. Um þessar mundir hafi hins vegar komið upp ýmsar spurningar um hvort verðtryggingin hafi einhver neikvæð áhrif varðandi aðra þætti í hagstjórninni.
,,Ég held að menn hafi almennt ekki komist að neinni niðurstöðu um það og ég tel ekki rétt að vera með neinar vangaveltur um breytingar fyrr en menn hafa komast að einhverri fræðilegri niðurstöðu um þetta,“ segir hann.
Í Morgunblaðinu í gær tók Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra undir þau sjónarmið Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings, í Morgunblaðsviðtali um helgina, að rétt væri að stefna að afnámi verðtryggingar í framtíðinni.
„Auðvitað hefði þetta áhrif á lífeyrissjóðina,“ segir Árni. „Okkar eignir eru að miklum hluta bundnar í verðtryggðum lánum. Sú verðtrygging sem þegar er komin á heldur sér að sjálfsögðu en menn þyrftu að horfast í augu við framtíðina ef engir pappírar eru lengur til á markaði sem eru verðtryggðir. Það breytir aðeins stöðunni.
Þetta er það sem við höfum búið við alla tíð og okkar forsendur byggjast á að þessar eignir séu verðtryggðar. Við þurfum að ná ákveðinni ávöxtun umfram verðtryggingu þannig að þetta hefði vissulega áhrif.“