Netvæðing veggjakrotsins

„Netið skýrir að einhverju leyti aukningu á veggjakroti. Það er alveg ljóst," segir Einar Ásbjörnsson, svæðisstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í Grafarvogi. Veggjakrotsmál sem komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru rúmlega tvöfalt fleiri á fyrstu tíu mánuðum árins 2007 en allt árið 2006. Flest slík mál komu upp í Grafarvogi.

Einar segir spennuna við verknaðinn skipta miklu máli hjá mörgum sem leggi stund á veggjakrot. „Það er ákveðin spenna fólgin í að laumast við þetta. Svo eru þessir strákar að setja myndir af þessu inn á netið, undir dulnefnum, sem eykur enn á spennuna," segir Einar sem telur netið skýra að hluta þá aukningu sem orðið hefur á veggjakroti á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar tölur frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eru skoðaðar kemur fram að karlar eru í miklum meirihluta þeirra sem höfð eru afskipti af vegna veggjakrots, eða 9 af hverjum 10. Tölurnar sýna að þeir sem höfð eru afskipti af vegna veggjakrots eru allt frá 11 ára og yfir fimmtugt. Flestir eru þó 15 til 19 ára.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert