Íslendingar borga allt að fjórum sinnum meira fyrir símtöl úr farsíma milli landa en íbúar landa innan Evrópsambandsins (ESB). Þann 30. júlí tók gildi tilskipun um 44,6 króna (0,49 evra) hámarksmínútugjald fyrir slíka þjónustu innan ESB.
Viðskiptavinir Símans greiða hins vegar á bilinu 84 til 194 krónur á mínútu fyrir að hringja til Íslands úr farsíma frá ESB-ríki. Hjá Vodafone er mínútuverðið á slíku símtali allt að 179 krónur. Innan ESB er hámarksgjald fyrir móttöku slíkra símtala 21,8 krónur (0,24 evrur).
Það kostar á bilinu 39 til 40 krónur að mótttaka reikisímtal milli landa hjá íslensku símafyrirtækjunum, eða um tvöfalda þá upphæð sem slíkt kostar innan ESB-svæðisins.
Tilskipunin er enn ekki orðin hluti af EES-samningnum samkvæmt upplýsingum frá viðskiptasviði utanríkisráðuneytisins. Íslendingar njóta þó góðs af tilskipuninni þegar þeir hringja milli landa innan ESB. Það gildir þó ekki um símtöl til EFTA-ríkjanna enn sem komið er.