Staða Íslands miðað við aðrar þjóðir hefur versnað í öllum námsgreinum sem svonefnd PISA-könnun nær til, mest í lesskilningi en minnst í stærðfræði. Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á fundi í menntamálaráðuneytinu í morgun.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagðist ekki geta neitað því að niðurstöðurnar valdi vonbrigðum, sérstaklega í ljósi þess mikla uppbyggingar- og þróunarstarfs sem átt hafi sér stað í skólum landsins á undanförnum áratug og þeirrar staðreyndar að fáar aðrar þjóðir verja jafn miklu fjármagni til grunnskólastigsins.
„Þá er sama hvort horft er á frammistöðu nemenda á prófunum eða stöðu Íslands í samanburði við önnur lönd. Frammistaða nemenda er nú verri í öllum greinunum en hún var árið 2000 og það sama á við ef frammistaðan nú er borin saman við árangur okkar árið 2003. Við þetta má svo bæta að ef við berum okkur saman við önnur lönd þá fjölgar þeim löndum sem ná betri árangri en við. Þótt þessar niðurstöður séu í heild sinni áhyggjuefni þá hef ég sérstakar áhyggjur af lesskilningi nemenda okkar. Þar erum við að dragast mest aftur úr öðrum löndum,“ sagði Þorgerður.
Í fréttatilkynningu ráðuneytisins segir: OECD birtir í dag niðurstöður alþjóðlegrar samanburðarrannsóknar sem Ísland tók þátt í árið 2006 (PISA). PISA er stærsta samanburðarrannsóknin á frammistöðu menntakerfa í heiminum en í rannsókninni er könnuð kunnátta 15 ára nemenda í lesskilningi, stærðfræði og náttúrufræði í 57 löndum. Þessi könnun var einnig lögð fyrir fyrir árin 2000 og 2003. Námsmatsstofnun sá um framkvæmd rannsóknarinnar á Íslandi og tóku allir grunnskólar og velflestir nemendur 10. bekkjar þátt í henni. Í könnuninni núna var sérstök áhersla á náttúrufræði þar sem reyndi á þekkingu nemenda á ýmsum sviðum raunvísinda, færni þeirra til að túlka vísindalegar staðreyndir og nota vísindaleg rök.
Í lesskilningi hefur frammistöðu íslenskra nemenda hrakað marktækt frá árinu 2000. Þeim nemendum sem lenda í lægsta hæfnisþrepinu hefur fjölgað og þeim sem lenda í efsta hæfnisþrepinu fækkað, bæði í lesskilningi og náttúrufræði. Þá hefur frammistaða nemenda eftir landshlutum hefur breyst á milli rannsókna. Vestfirðir, Norðurland eystra og vestra sýna bestu frammistöðu landshluta, en Austurland ásamt Reykjavík og nágrenni hrakar mest frá árinu 2000.
Brýnt sé að leitað verði skýringa á þessari útkomu og þurfi skólayfirvöld, sveitarstjórnir, skólastjórnendur og kennarar að fara í saumana á þessum niðurstöðum og draga af þeim lærdóm. Menntamálaráðherra treysti því að frumvörp til laga fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla, ásamt frumvarpi um kennaramenntun, sem nýlega voru lögð fram á Alþingi, skapi forsendur fyrir bættum árangri nemenda en þar er m.a. gert ráð fyrir lengingu kennaramenntunar og skilvirkara mati á skólastarfi.
„Árið 2000 náðu átta lönd betri árangri en við á lestrarprófinu en árið 2006 var þessi tala komin upp í 15. Þá eru það einnig vonbrigði að sjá að í náttúrufræði og lestri hefur íslenskum nemendum fjölgað í lægstu getuhópunum en fækkað í þeim efstu,“ sagði Þorgerður.
„Við skulum þó varast alhæfingar því niðurstöðurnar eru ekki einsleitar. Það er t.d. athyglisvert að sjá að dregið hefur úr þeim mun sem var á frammistöðu drengja og stúlkna en einnig vakti það athygli mína hversu ólík frammistaða nemenda er eftir landshlutum þótt áfram sé lítill munur á milli skóla. Þetta, ásamt fjölmörgu öðru sem fram kemur í rannsókninni, hlýtur að vekja upp spurningar sem við öll hljótum að skoða gaumgæfilega á næstunni. Það má finna gríðarlegan fróðleik í þeim gögnum sem nú liggja fyrir og þau eru öllum aðgengileg. Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja rannsakendur á sviði skólamála, kennara og skólayfirvöld um land allt, að nýta sér þessi gögn til að leita svara við spurningum sem vakna við lestur þessara niðurstaðna.“