Skerðing örorkubóta hjá níu lífeyrissjóðum hefur vakið hörð viðbrögð 1600 þolenda, sem misstu allt að 70 þúsund krónum á mánuði. Þeir efast um réttmæti skylduaðildar að lífeyrissjóðum.
„Aðgerðin er óþolandi og óþörf og algjört skeytingarleysi gagnvart örlögum fólks," segir Sigursteinn Másson, formaður Öryrkjabandalagsins. „Skerðingin á sér langan aðdraganda og er lagaleg skylda sjóðanna samkvæmt samþykktum okkar," segir Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis.
Ein meginforsenda skylduaðildar að lífeyrissjóðum er félagslegt samtryggingarhlutverk þeirra. „Því hafa þeir brugðist og ríkisstjórnin og löggjafinn hljóta að bregðast við. Eignir sjóðanna hafa aukist, þeir skila milljarðahagnaði árlega, skerðingin skiptir þá litlu, en þolendur mjög miklu. Hlutverk og skyldur lífeyrissjóðanna, sem hafa leikið einleik á skjön við samfélagið og stjórnvöld, hljóta að verða endurskoðaðar," segir formaður Öryrkjabandalagsins.
„Fólk hlýtur að velta því alvarlega fyrir sér hvort betra sé að ávaxta sitt fé öðruvísi en í lífeyrissjóðum," segir sjóðsfélagi sem telur að ýmsir myndu frekar velja einkatryggingar eða að setja peningana undir koddann. Öryggi fólks sé falskt. Menn borgi skatta og spari lífeyri alla ævi og eigi ekki fyrir nauðþurftum þegar til kemur.