Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir að samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti frá því í byrjun október renni þjónustusamningur við SÁÁ út í árslok og „vel fyrir þann tíma þurfi að hefja viðræður um hvort og með hvaða hætti verði framhald á þjónustukaupum milli aðila“.
Þetta segir Gunnar m.a. um gagnrýni Þórarins Tyrfingssonar, yfirlæknis á Vogi, í Morgunblaðinu í gær, um að samkvæmt frumvarpi til fjárlaga eigi SÁÁ að fá sömu upphæð og árið 2005, 170 milljónum minna en þurfi til að reka SÁÁ á næsta ári. SÁÁ fær samkvæmt frumvarpinu 602 milljónir króna til reksturs síns.
Gunnar segir að í ljósi þess að samningaviðræður ráðuneytisins og SÁÁ standi nú yfir geti fjárlaganefndin ekki tekið fram fyrir hendurnar á heilbrigðisráðuneytinu varðandi fjárveitingar, „enda er það hlutverk ráðuneytisins miðað við þessar yfirlýsingar að ganga frá þeim samningum“, segir Gunnar.
Hann segir það hafa komið fram í ræðu sinni um fjárlagafrumvaprið á Alþingi að von sín væri að viðræðum ráðuneytis og SÁÁ yrði lokið milli annarrar og þriðju umræðu fjárlaga, „enda hefði ráðuneytið lýst því yfir að það þyrfti að vera búið að ljúka þessari samningsgerð vel fyrir árslok og það eru einungis 25 dagar til ársloka“.
Gunnar segir upphæðina í fjárlagafrumvarpinu byggjast á núverandi samningi. Spurður hver staðan verði náist samningar ekki svarar Gunnar: „Við skulum horfa til þess sem hefur verið sagt, að viðræðunum þurfi að ljúka fyrir árslok. Ég lít svo á að það eigi að vera ekki einum degi fyrir árslok heldur nokkrum.“