Bönnuð landganga vegna gamalla dóma

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, gagnrýndi á Alþingi í dag, að bandarísk stjórnvöld hefðu í ýmsum tilfellum meinað íslenskum einstaklingum að koma til landsins vegna gamalla dóma, sem þeir hefðu hlotið hér á landi.  

Álfheiður sagðist hafa  upplýsingar um virtan kaupsýslumann, sem fyrir 20 árum fékk dóm fyrir bókhaldsbrot en refsingu var raunar frestað, verkfræðing  sem á unglingsárum fékk vægan dóm í undirrétti fyrir vörslu á kannabis og ungan mann sem fékk smávægilega sekt fyrir óspektir á almannafæri fyrir nokkrum árum. Allir þessir menn ættu það sameiginlegt, að hafa ekki fengið að koma inn í Bandaríkin og einn þeirra var sendur til baka með sömu flugvél og hann kom.

Þá sagðist Álfheiður hafa fengið upplýsingar um mörg fleiri slík tilfelli, sem hún hefði þó ekki getað sannreynt. Svo virtist sem bandarísk stjórnvöld hafi heimildarmenn í dómskerfinu eða aðgang að sakaskrá því í öllum tilfellum væri um að ræða dóma, sem féllu löngu áður en farið var að skrá slíka dóma rafrænt.

Með ólíkindum væri, að mál á borð við þessu skuli vera tekin upp við komu fólks til Bandaríkjanna og að mönnum, sem hljóti og afpláni dóma samkvæmt íslenskum lögum skuli vera refsað síðar fyrir sömu mál á erlendri grundu.

Álfheiður spurði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hvort  bandarísk stjórnvöld hefðu á síðustu 15 árum leitað liðsinnis íslenskra yfirvalda um öflun upplýsinga vegna refsidóma sem fallið hafa í málum íslenskra ríkisborgara.

Björn svaraði að ein slík beiðni hefði borist dóms- og kirkjumálaráðuneytinu árið 1993 vegna manns sem handtekinn var í Bandaríkjunum og ríkislögreglustjóra hefði fyrir nokkrum árum borist ein beiðni frá Interpol um að veita upplýsingar um mann sem grunaður var um vörslu barnakláms. Björn sagði, að nú væri auðvelt að afla sér upplýsinga um þá sem hljóta refsidóma þar sem þeir væru allir birtir á netinu.

Álfheiður sagði gott, að íslensk stjórnvöld væru ekki að safna upplýsingum fyrir erlend ríki eða sendiráð eins og dæmi væru um frá tímum kalda stríðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert