Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að þeim þjóðum, sem munu taka þátt í loftrýmiseftirliti við Ísland, væri í sjálfsvald sett hvort orrustuflugvélar þeirra beri vopn í eftirlitsflugi. Orrustuflugvélar Frakka eru að jafnaði vopnaðar í eftirlitsflugi en ekki vélar Breta og Bandaríkjamanna.
Ingibjörg Sólrún var að svara fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni, þingmanni VG, um hvort fyrir lægi að erlendar orrustuflugvélar, sem ríkisstjórnin hyggist fá hingað til loftrýmiseftirlits eða æfinga, muni bera vopn.
Steingrímur lýsti yfir miklum vonbrigðum með þessar upplýsingar og sagði að um væri að ræða afturför frá því sem var undir lok veru Bandaríkjamanna hér.
Ingibjörg Sólrún sagði að gert væri ráð fyrir að hér væru tiltækar geymslur fyrir vopn vélanna þegar þær flygju án þeirra. Til dæmis flygju eftirlitsvélar Breta og Bandaríkjanna ekki vopnaðar en vélar Frakka og Spánverja væru ævinlega vopnaðar í eftirlitsflugum. Sama gilti um vélar Norðmanna og Dana þegar flogið væri í veg fyrir ókunnar flugvélar en ekki ef um æfingar væri að ræða.
Frakkar hefja eftirlitið í vor og sagði Ingibjörg Sólrún, að væntanlega myndu þeir nota Mirage 2000 þotur. Þær væru vopnaðar tveimur 30 millimetra fallbyssum og 9 flugskeytum. Bandaríkjamenn, sem munu sjá um eftirlitið síðari hluta næsta árs, myndu væntanlega nota F-15 orrustuþotum. Þær væru yfirleitt búnar 20 mm fallbyssu og 8 flugskeytum af Sidewinder- og Sparrow-gerðum.
Norðmenn og Pólverjar munu nota F-16 orrustuflugvélar, sem eru búnar 20 millimetra fallbyssum og 6 flugskeytum af sömu gerðum og eru í F-15 flugvélum. Þá hafa Spánverjar lýst áhuga á loftferðaeftirliti hér. Ef af yrði myndu þeir væntanlega nota Eurofigher orrustuvélar, sem eru búnar 27 flugskeytum auk 13 flugskeytum af mismunandi gerð.
Ingibjörg Sólrún sagði, að æfingar í vopnanotkun, í þeim skilningi að hleypt verði af vopnum, verði ekki leyfðar á íslensku yfirráðasvæði enda standi slíkar æfingar ekki til.