Svokallaðar skólagúrkur Ragnars Sverrissonar, garðyrkjubónda í Laugarási í Biskupstungum, hafa hitt í mark hjá íslenskum neytendum. Gúrkurnar eru hollari, bragðmeiri og henta betur í vasa en venjuleg tegund, eins og Ragnar orðar það í samtali við suðurland.is.
„Það var um það leyti þegar tómatabændur voru sífellt að koma með nýjar tegundir á markað að mér datt í hug að gera það sama merð gúrkurnar. Það er að segja höfða til nýs markhóps og auka grænmetisneyslu hjá börnum," segir Ragnar sem ræktar skólagúrku á tæplega 600 fermetrum. „Það kemur mér á óvart hvað skólagúrkan er orðin vinsæl, án nokkurrar markaðssetningar."
Ragnar er einn af stærri gúrkubændum landsins og ræktar venjulega gúrku á allt að 3200 fermetrum. Hann tekur að lokum fram að hann noti engin eiturefni við ræktunina, einungis lífrænar varnir.