„Ég hef aldrei séð föður minn og hann hefur aldrei séð mig. Mig langar að kynnast honum," segir Hollendingurinn Robert Einar Wijnekus í viðtali við 24 stundir. Hann leitar nú að föður sínum sem er Íslendingur.
„Ég býst við að hann hafi aldrei vitað af tilveru minni. Ég hef lengi ætlað að byrja að leita hans, en aldrei haft tíma vegna fjölskyldunnar, vinnunnar og náms."
Robert segir föður sinn heita Einar. Hann er ekki viss um hvers son hann er, en býst við að hann sé Einarsson. Móðir Roberts heitir María og er hollensk. Einar hitti hana í Svíþjóð, hugsanlega í Gautaborg árið 1964 þar sem hann stundaði nám í fiskeldi.
„Ég er fæddur árið 1965 og mig langar að fá að hitta hann allavega einu sinni," segir Robert. „Ég hef engan áhuga á að sníkja peninga af föður mínum eða eitthvað slíkt."