Nýr Herjólfur nauðsynlegur strax

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur.
Vestmannaeyjaferjan Herjólfur.

Árni Johnsen, alþingismaður, sagði á Alþingi, að nauðsynlegt væri að kaupa nú þegar nýtt skip til að leysa af hólmi Herjólf á siglingaleiðinni milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Herjólfur væri kominn til ára sinna og bilaði oft en 3-4 ár væru þar til ný ferja hæfi siglingar milli Eyja og Bakkafjöru. 

Árni sagði, að stærsta verstöð landsins væri nú nánast einangruð vegna þess, að Herjólfur væri í slipp vegna bilunar og flugumferð væri stopul vegna þess m.a. að ekki væri gengið frá samningum um fyrirkomulag flugumferðarstjórnar á Vestmannaeyjaflugvelli á kvöldin.

Árni sagði, að Herjólfur væri kominn til ára sinna og bilanir væru tíðar: það læki með rörum, hliðarskrúfa væri biluð, bílalyftan væri ónýt og lykt í skipinu væri óþolandi. Að minnsta kosti 3-4 ár væru í Bakkafjöru-Herjólf samkvæmt  ákvörðun ríkisstjórnarinnar, sem ekki hefði sama metnað í samgöngumálum og Færeyingar. Þeir væru að undirbúa 12 km göng til Sandeyjar og leggðu þau upp eins og að drekka vatn.

„Við sitjum uppi með verkfælni Vegagerðarinnar undanfarin ár í þessum árum og slæleg vinnubrögð, metnaðarleysi samgönguyfirvalda og Vegagerðarinnar," sagði Árni.

Kristján L. Möller, samgönguráðherra, sagði að núverandi ríkisstjórn væri að vinna að því að af fullum krafti, að bæta samgöngur til Eyja. Hann sagði bagalegt að Herjólfur hefði þurft að fara í slipp í tvo daga en nefndi að Selfoss myndi sigla til Vestmannaeyja á morgun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka