Lögreglan leitar nú manns sem réðist á leigubílstjóra rétt upp úr kl. 21 í kvöld við Hátún í Reykjavík. Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gerði maðurinn, sem var farþegi í bílnum, tilraun til þess að ræna bílstjórann.
Að sögn lögreglu veittist árásarmaðurinn að leigubílstjóranum með eggvopni með þeim afleiðingum að bílstjórinn særðist á handlegg. Auk þess veitti hann bílstjóranum áverka á andliti með hnefanum. Ekki er um lífshættulega áverka að ræða.
Árásarmaðurinn náði að flýja af vettvangi og leitar lögreglan hans nú ákaft. Hún lítur málið afar alvarlegum augum enda er um grófa líkamsárás að ræða auk tilraunar til ráns.
Rannsókn málsins stendur yfir.