Ríkisstjórnin hefur kynnt aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja en aðgerðirnar verða lögfestar á vorþingi. Þ.á.m. á að afnema skerðingu tryggingarbóta vegna tekna maka frá og með 1. apríl. Áætlaður kostnaður vegna þessa er talinn nema 1350 milljónum á næsta ári og 1,8 milljörðum á heilu ári.
Þá verður frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67 til 70 ára hækkað í allt að 100.000 kr. á mánuði frá 1. júlí nk. Frítekjumarkið er í dag 25.000 á mánuði. Jafnframt mun ríkissjóður tryggja að ellilífeyrisþegar fái að lágmarki 25.000 kr. á mánuði frá frá lífeyrissjóði 1. júlí nk.
Aðgerðir sem skila öryrkjum sambærilegum ávinningi verða undirbúnar í tenglsum við starf framkvæmdanefndar um örorkumat og starfsendurhæfingu. Áætlaður kostnaður er 1.000 milljónir kr. árið 2008 og 2.000 milljónir á heilu ári.
Skerðing lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignarsparnaðar verður afnuminn frá 1. janúar 2009. Áætlaður kostnaður er um 30 milljónir kr.
Kostnaðurinn vegna þessara aðgerða er talinn nema 2700 milljónum kr. á næsta ári og 4300 milljónum á heilu ári. Samanlagt nemur því heildarkostnaður vegna ákvarðana núverandi ríkisstjórnar til að bæta kjör aldraðra og öryrkja um fimm milljörðum á ári.
Aðgerðirnar kynntu þau Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra og Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra.