Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sagði í umræðum um starfsemi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar á Alþingi í dag, að eðlilegt væri að tortryggni skapist þegar það gerðist, að aðilar ættu í viðskiptum sem sætu beggja vegna borðsins.
„Á mannamáli sagt gerist það einfaldlega, að Sjálfstæðisflokkurinn selur sjálfum sér þessar eignir með býsna hliðstæðum hætti og annar ónefndur flokkur seldi sjálfum sér banka fyrr á þessari öld," sagði Steingrímur.
Hann sagði ákaflega óheppilegt, að ekki skyldi hafa farið fram formlegt opinbert útboð á fasteignum, hafið yfir allan vafa um að allir stæðu þar jafnt að vígi.
„Auk þess má spyrja: Hvers vegna var þessi áhersla á að selja eignirnar?" spurði Steingrímur og sagði að þær röksemdir stæðust ekki að bullandi undirverð væri réttlætanlegt vegna þess að menn höfðu af því áhyggjur að fasteignamarkaður á svæðinu kæmist ella í uppnám.