Fleiri störf en hjá varnarliði

Rætt er um starfsemi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar á Alþingi.
Rætt er um starfsemi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar á Alþingi. mbl.is/Sverrir

Geir H. Haar­de, for­sæt­is­ráðherra, sagði þegar hann flutti skýrslu um starf­semi Þró­un­ar­fé­lags Kefla­vík­ur­flug­vall­ar á Alþingi í dag, að ef vel tæk­ist til við upp­bygg­ingu á fyrr­um varn­ar­svæði yrðu fleiri störf til á Suður­nesj­um en voru þegar varn­ar­liðið hafði þar bækistöðvar á varn­ar­svæðinu.

Geir sagði, að ár væri liðið frá því Alþingi samþykkti mót­atkvæðalaust lög sem starf­semi fé­lags­ins byggja á.

„Við skul­um ekki gleyma því hvernig um­horfs var á Kefla­vík­ur­flug­velli haustið 2006," sagði Geir og bætti við að 800 manns hefðu þá misst vinn­una við brott­hvarf varn­ar­liðsins. Nú störfuðu 400 manns á gamla varn­ar­svæðinu og starf­sem­in þar væri rétt að byrja. Með ólík­ind­um væri, að reynt væri að gera lítið úr upp­bygg­ing­ar­starf­inu eða gefa í skyn að ekki sé allt með feldu.

Geir sagði, að gagn­rýni, sem komið hefði fram á sölu fast­eigna á svæðinu væri ekki á rök­um reist. 135 bygg­ing­ar hefðu verið seld­ar til 5 aðila fyr­ir 15,7 millj­arða króna og nær und­an­tekn­ing­ar­laust hefði hæsta til­boði verið tekið. All­ar meg­in­regl­ur um gagn­sæi og val á hag­kvæm­asta til­boði hefðu verið hafðar til hliðsjón­ar. Rík­is­end­ur­skoðun hefði fengið í té all­ar upp­lýs­ing­ar um starf­semi þess en ekki talið sér heim­ilt að birta til­boð eða samn­inga nema með samþykki viðkom­andi aðila. „Ég get full­yrt, að hvergi er maðkur í þess­ari mysu," sagði Geir.

Geir sagði að vegna þess hve vel hafi gengið að selja fast­eign­ir ætti ekki að stranda á fjár­magni hjá Þró­un­ar­fé­lag­inu til að hreinsa svæðið en af því hefðu ýms­ir haft áhyggj­ur.  

Atli Gísla­son, þingmaður VG, sagði að sama væri þótt mark­mið væru góð og til­gang­ur, þá bæri að gæta op­in­berra reglna um meðferð al­manna­eigna. Þessu máli væri langt frá því að vera lokið.

Sagðist Atli hafa fengið í hend­ur mikið af gögn­um og upp­lýs­ing­um, sem ekki komu fram í ræðu for­sæt­is­ráðherra. Þessi gögn sýndu að megn óánægja ríkti hjá fjölda fólks, þar á meðal margra sjálf­stæðismanna á Suður­nesj­um, sem sendi inn til­boð í fast­eign­in­rn­ar en var dregið á asna­eyr­un­um.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert