Mikið var um að vera í Fjölskylduhjálp Íslands við Eskihlíð í gær. Úthlutun matvæla fer þar fram alla miðvikudaga og er þá ætíð margt um manninn. Starfsmennirnir, sem allir eru sjálfboðaliðar, voru snarir í snúningum og unnu hörðum höndum við að stilla upp matvöru og öðrum föngum, áður en opnað yrði fyrir úthlutunina.
Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður FÍ, segir að alltaf sé mikið að gera, þótt vissulega sé sérstaklega mikið álag fyrir jólin. Mánudagar og þriðjudagar fari í að afla fanga og svo sé úthlutað á miðvikudögum. Fólkið sýni fyrst pappíra upp á að það þurfi aðstoðina og svo sé maturinn skammtaður eftir fjölskyldustærð.
„Einhvern mat verðum við að kaupa, eins og í dag erum við með grísabollur, en annars er þetta allt matur sem við fáum gefins. Fyrirtæki gefa okkur ýmislegt og við sækjum brauð í bakarí á þriðjudagskvöldum, sem er svo gefið á miðvikudögum,“ segir Ásgerður. Eitthvað sé um að einstaklingar gefi stórar matargjafir til félagsins og ein „huldukona“ gefi þeim matargjöf, andvirði einnar milljónar króna, fyrir hver jól.
Spurð um aðgerðir stjórnvalda vegna aukinnar fátæktar í landinu sagði hún vandamálið fjölþætt. Mikilvægt væri að ríkið og sveitarfélögin ynnu saman að málinu. Framfærslukostnaður væri vissulega alltof mikill miðað við tekjur lægstu launahópanna og það yrði að leysa í kjarasamningum.
„Nefndir hafa verið starfandi við að skoða heildarlausnir á málefnum fátækra, m.a. á vegum ASÍ, og það liggja fyrir tillögur í ráðuneytinu um hvernig beri að taka á málinu. Fljótlega verður sett á fót nefnd, sem fer yfir tillögurnar og leggur til hvernig best er að forgangsraða og bæta stöðu þessara hópa. Neyðin er því miður alltof mikil í okkar velferðarsamfélagi og það verður að taka á henni með ýmsum hætti,“ sagði Jóhanna.
Guðrún Magnúsdóttir, sem er ein af stofnendum FÍ, var að selja jólaskraut á vægu verði. Hún segir mikilvægt að hafa einhverja hluti til sölu, þar sem fólk vilji t.d. kaupa jólagjafirnar, stoltið bjóði því ekki að þiggja þær gefins, þótt einhverjir verði vissulega að gera það. Henni þykir æ fleira ungt fólk koma til þeirra í leit að aðstoð og það sé greinilegt að velferð samfélagsins fylgi mikil örbirgð, sem fari ört vaxandi.
Kona á fertugsaldri, sem var að sækja matarskammt fyrir vikuna, féllst á að ræða við blaðamann. Hún kemur alltaf á miðvikudögum, alla leið af Suðurnesjunum, ásamt sex öðrum, til að ná í mat fyrir fjölskylduna, þar sem engin viðlíka hjálp sé fyrir hendi þar.
Hún er einstæð móðir með þrjú börn, auk þess að vera öryrki, og segir bæturnar engan veginn duga. Hún sé með um 120.000 krónur í framfærslu á mánuði, sem svo muni skerðast eftir áramót. Hún býr í eigin húsnæði, en segir það ganga upp og ofan að greiða af því. „Það má ekkert út af bregða til að maður sé kominn út af sporinu og það er mjög takmarkað sem ég get boðið börnunum mínum upp á,“ segir hún.
„Þetta var mikil skömm fyrst þegar maður byrjaði að koma hingað, en þegar ég sá allt hitt fólkið rann upp fyrir mér að ég er ekkert ein í þessum aðstæðum,“ segir hún og segist verða vör við mikla neyð í kringum sig. Hún eigi reyndar foreldra sem hún geti leitað til, en vilji ekki biðja þá um aðstoð of oft.
„Jólin verða ekki gleðileg, ég verð að halda í hverja krónu,“ segir hún.