Skeiðarárhlaup hafið

Hlaup er nú hafið í Skeiðará.
Hlaup er nú hafið í Skeiðará. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Rennsli og rafleiðni hefur vaxið í Skeiðará undanfarna daga og segja sérfræðingar Vatnamælinga Orkustofnunar nú öruggt að Skeiðarárhlaup sé hafið. Síðast hljóp úr Grímsvötnum í nóvember 2004.  Því hlaupi fylgdi eldgos í Grímsvötnum.

Rennsli árinnar í dag var talið álíka mikið og gott sumarrennsli og brennisteinslykt fannst á Skeiðarársandi.

Hlaup í Skeiðará fara af stað þegar vatn úr Grímsvötnum stendur nægilega hátt til að ná að brjóta sér leið undir Skeiðarárjökul.

Vatnstaðan í Grímsvötnum var frekar lág við upphaf hlaupsins svo að öllum líkindum verður hlaupið lítið. „Við gerum ekki ráð fyrir að þetta verði stórt hlaup, " sagði Gunnar Sigurðsson vatnamælingamaður og verkfræðingur hjá Orkustofnun í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins með þeim fyrirvara að slíkt vissi maður aldrei með fullri vissu fyrirfram.

Gunnar sagðist hafa fylgst náið með vatnavöxtum í ánni síðustu vikuna og hafa bæði vatnavextir aukist sem og rafleiðni þess sem sýnir hversu mikið af vatninu er komið af jarðhitasvæðum.

„Við sáum einnig að það kom fram órói á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar í Grímsvötnum um síðustu nótt og þá fór ekkert á milli mála að það var komið af stað Skeiðarárhlaup," bætti Gunnar við.

 Gunnar sagði að vatnshæðin í Grímsvötnum í október hafi verið 20 cm lægri en fyrir hlaupið sem varð 2004 og því áttu menn alveg eins von á því að ekkert hlaup yrði í ár.

Á vefsíðu Orkustofnunnar má sjá að vatnshæð í ánni lækkaði á kafla í gær en Gunnar sagði líklegast að það stafaði af því að áin væri að grafa sig niður og að vatnsmagnið væri án efa að aukast þó yfirborðið lækkaði.

Fylgjast má með vatnshæð og rafleiðni í ánni í vöktunarkerfi Vatnamælinga: vefsíðu Orkustofnunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert