Stofnvísitala þorsks lækkar um 20%

Heildarvísitala þorsks í nýrri stofnvísitölu Hafrannsóknastofnunar lækkaði um 20% frá haustmælingunni árið 2006 og hefur lækkað um 34% frá árinu 2004. Stofnvísitala ýsu er áfram há en lækkaði þó um 13% frá því í fyrra.

Hafrannsóknastofnun bendir á að heildarvísitala í haustmælingu jafngildi ekki stærð viðmiðunarstofns en á s.l. vori áætlaði Hafrannsóknastofnunin að viðmiðunarstofninn í byrjun árs 2008 yrði um 12% minni en árið áður. Þó svo að stofnmæling að hausti nái ekki vel til þorsks á grunnslóð, gefi þessi niðurstaða svipaða mynd af þróun stofnsins hin síðari ár og stofnmælingin í mars.

Stofnunin segir, að lækkun vísitölunnar megi rekja til þess að árgangarnir frá 2001, sem hafa mælst lélegir eða mjög lélegir, séu að koma í ríkara mæli inn í stofmælinguna. Þá benda aldursskiptar vísitölur til þess að árgangurinn frá 2007 sé slakur og er í samræmi við vísbendingar úr stofnmælingu rækju á grunnslóð vestan- og norðanlands frá því í haust. Nákvæmari mæling fæst á stærð þessa árgangs í mars n.k.

Árgangurinn frá 2004, nú þriggja ára, mælist sem fyrr mjög lélegur, líkt og ístofnmælingunni í mars. Mæliskekkjan var metin lítil vegna jafnrar útbreiðslu þorsksins. Mest fékkst af þorski á Vestfjarðamiðum og djúpt út af Norður- og Austurlandi líkt og undanfarin tvö ár. Meðalþyngd 6-8 ára fisks mælist nú 10-15% lægri en í stofmælingunni 2006 en meðalþyngd annarra aldurshópa er svipuð. Meðalþyngd eftir aldri er nú um 30% lægri en hún var árið 1996. Á sama tíma hefur meðallengd eftir aldri minnkað. 

Lækkun stofnvísitölu ýsu frá fyrra ári má einkum rekja til þess að minna fékkst af ýsu af árgöngunum 2004 og 2005. Hafrannsóknastofnun segir, að þetta komi vel fram í lengdardreifingu ýsunnar sem sýni, að mun minna sé nú af 25-35 sm ýsu en undanfarin ár. Aldursskiptar vísitölur benda til að árgangurinn frá 2007 sé yfir meðallagi.

Útbreiðsla ýsu er mjög jöfn allt í kringum landið eins og undanfarin ár og mæliskekkja því lítil.

Heildarvísitala grálúðu árið 2007 var svipuð og árin 2003-2006 og er ástand stofnsins talið mjög lélegt. Rannsóknarsvæðið náði ekki yfir uppeldisslóð grálúðu og því fengust engar upplýsingar um nýliðun. Grálúðu var mest að finna djúpt út af Vestur-, Norður- og Austurlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert