Hæstiréttur hefur sýknað karlmann af ákæru fyrir að hafa framið kynferðisbrot gegn dóttur sambýliskonu sinnar. Þótti dómnum, að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að færa fram nægilega sönnun um sök mannsins þannig að hún yrði ekki véfengd með skynsamlegum rökum.
Héraðsdómur hafði áður dæmt manninn í 12 mánaða fangelsi, þar af 9 mánuði skilorðsbundið.
Manninum var gefið að sök, að hafa hafa tvisvar framið kynferðisbrot dóttur sambúðarkonu sinnar, en stúlkan er fædd árið 1991. Átti fyrra tilvikið að hafa gerst árið 2002 á heimili fólksins en hið síðara á tímabilinu árið 2005. Í héraðsdómi var maðurinn sakfelldur fyrir fyrra ákæruatriðið en sýknaður af því síðara.
Hæstiréttur segir, að í málinu hafi leikið vafi á um tímasetningu hins ætlaða brots. Fól ríkissaksóknari lögreglu sérstaklega að kanna hvenær ákveðinn atburður hefði átt sér stað, sem stúlkan og móðir hennar miðuðu tímasetningu hins ætlaða brots við. Voru í framhaldinu kvödd til ýmiss vitni í tilraun til að upplýsa um þetta.
Hæstiréttur sagði að sakargiftir á hendur manninum hefðu verið gegn neitun hans verið studdar frásögn stúlkunnar en hún hefði verið óljós og ekki fengið stuðning af gögnum málsins. Nokkur vissa um tímasetningu hins ætlaða brots skipti verulegu máli en um það hefði framburður vitna ekki verið á einn veg, auk þess sem missagnir voru um önnur atriði.