Hæstiréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Suðurlands, um að hafna því að kalla sýslumanninn á Selfossi sem vitni í máli, sem höfðað var gegn konu vegna meints ölvunaraksturs. Um er að ræða mál sem vakti mikla athygli fyrr á árinu vegna þess að tekið var þvagsýni úr konunni gegn vilja hennar.
Konan krafðist þess í máli, sem höfðað var gegn henni, að læknir yrði kvaddur fyrir dóminn sem vitni og að sýslumaðurinn yrði einnig leiddur fram sem vitni. Þá vildi konan fá að leggja fram tiltekin skjöl. Héraðsdómur synjaði kröfunni um gögnin vísaði kröfunum um vitnaleiðslurnar frá.
Hæstiréttur segir, að sspurningin sem konan vildi leggja fyrir lækninn varðaði ekki atvik málsins og staðfesti rétturinn því þá niðurstöðu héraðsdóms að vísa þeirri kröfu frá.
Hæstiréttur féllst hins vegar ekki á það með héraðsdómi að sýnilega þarflaust hefði verið að leiða sýslumanninn sem vitni í málinu og lagði því fyrir héraðsdómara að taka þá kröfu til meðferðar.