Dæmdur í 16 mánaða fangelsi

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt 27 ára gamlan Litháa í 16 mánaða fangelsi fyrir fíkniefnabrot og fyrir að virða ekki endurkomubann en um er að ræða mann, sem sakfelldur var í svonefndu líkfundarmáli fyrir nokkrum árum.

Maðurinn bar nafnið Tomas Malakauskas þegar hann var dæmdur í 2½ árs fangelsi í líkfundarmálinu en hefur skipt um nafn og heitir nú Tomas Arlauskas.

Arlauskas var í október 2006 fluttur úr landi í fylgd þriggja lögreglumanna til Vilnius eftir að hann hafði afplánað hluta af dómi sínum. Hann var úrskurðaður í endurkomubann og staðfesti dómsmálaráðuneytið þann úrskurð.

Arlauskas var síðan handtekinn 20. nóvember í bíl í Hafnarfirði og færður á lögreglustöð. Við leit á honum fundust 25,62 grömm af amfetamíni. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir. Hann neitaði sök varðandi meint brot á útlendingalögum fyrir að koma aftur til landsins þrátt fyrir bann og sagði að sér hefði ekki verið birt ákvörðun Útlendingastofu um brottvísun með lögformlegum hætti og ekki  gerð grein fyrir að hann mætti ekki koma til Íslands næstu 10 ár.

Arlauskas sagði fyrir dómi, að hann hafi síðast komið til landsins fyrir þremur mánuðum síðan og unnið við byggingarvinnu. Hann ætti eiginkonu hér á landi og ættu þau von á barni í febrúar. Hann hafi tekið upp eftirnafn eiginkonu sinnar, Arlauskas, og fengið skilríki útgefin með því nafni í Litháen. Ástæðan hafi verið sú að nafn hans hafi verið orðið þekkt bæði á Íslandi og í Litháen vegna hins svokallaða líkfundarmáls.

Hann sagði þrjá lögreglumenn hafa komið á sinn fund á Litla-Hrauni og sagt honum að til stæði að vísa honum úr landi. Hafi þeir komið með skjal til hans sem hafi verið ritað á íslensku. Hann hafi óskað eftir túlki og verjanda en því verið synjað. Hann hafi því neitað að skrifa undir skjalið og alls ekki gert sér grein fyrir að honum væri bönnuð för til landsins næstu 10 ár.

Eiginkona mannsins sagði, að hann hafi nú síðast komið til landsins í september en áður hafi hann dvalið á Íslandi frá janúar 2007 og fram í ágúst sl.

Þrír lögreglumenn, sem  fóru á Litla-Hraun 27. september 2006, til að birta Arlauskas ákvörðun Útlendingastofu, báru að málið hefði verið skýrt vel út fyrir honum m.a. að hann mætti ekki koma til Íslands næstu 10 ár. Hann hafi virst skilja það fullkomlega en  verið mjög ósáttur við þessa ákvörðun.

Héraðsdómur taldi sannað, að Arlauskas hefði gerst sekur um brot á útlendingalögum og einnig gegn fíkniefnalögum og dæmdi hann í 16 mánaða fangelsi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert