Mikil heppni þykir að ekki varð slys þegar bíll lenti út af Suðurlandsvegi í Hveradalabrekkunni, þar sem gufu frá Hellisheiðarvirkjun leggur meðfram fellinu. Katrín Briem, myndlistarmaður á Stóra-Núpi, var á leið til Reykjavíkur þegar óhappið varð.
„Veðrið var ágætt, ég keyrði greitt yfir Hellisheiði og þar var engin hálka. En í brekkunni rétt neðan við Skíðaskálann í Hveradölum varð skyndilega flughált og bíllinn dansaði á veginum nokkra stund áður en hann fór út af. ... Hálkan kom svo snögglega að ég gat ekkert gert og gerði ekkert, enda til lítils að bremsa."
Katrín furðar sig á hálkunni en telur ekki ólíklegt að hún hafi myndast af gufu. Vegagerðin kannast ekki við formlegar kvartanir vegna ísingar af gufu á Hellisheiði. Lögreglan á Selfossi staðfestir að Hveradalabrekkan sé mjög varasöm og þar sé oft glæra þótt Hellisheiðin sé hálkulaus.